Hoppa yfir valmynd

Hólmsá friðlýst gegn orkuvinnslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu efsta hluta vatnasviðs Hólmsár gegn orkuvinnslu í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Hólmsá kemur upp í Hólmsárbotnum suðaustur af Torfajökli. Í hana falla miklar lindir, þar á meðal Brytalækir að vestan og eins jökulkvíslar undan Mýrdalsjökli. Áin rennur víða í gljúfrum og í henni eru fjölmargir hólmar og nokkrir fossar, þ.m.t. Axlarfoss.

Ýmsar virkjunarhugmyndir hafa komið fram varðandi Hólmsá og fengið umfjöllun í rammaáætlun. Einn þeirra virkjunarkosta náði til efsta hluta vatnasviðs árinnar en Alþingi ákvað árið 2013 að hann skyldi fara í verndarflokk áætlunarinnar. Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda vatnasvið efsta hluta Hólmsár gegn orkuvinnslu í samræmi við ákvörðun Alþingis. Friðlýsingin nær ekki til alls vatnasviðsins vegna hugmynda um virkjanir neðar í ánni sem eru í biðflokki rammaáætlunar. Friðlýsta svæðið er 196 km2 að stærð og nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu með vatnsafli.

„Ég fagna því mjög að þessum áfanga er náð enda er um stórkostlega náttúru að ræða á þessu svæði sem sómir sér mun betur vernduð en virkjuð. Þar með eru perlur eins og Hólmsárlón, Brytalækir og Axlarfoss komnar í var fyrir virkjunaráformum á hálendinu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

 
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics