Hoppa yfir valmynd

Fjölbreytt dagskrá í Kaupmannahöfn á aldarafmæli fullveldisins

HÁTT OG LÁGT – samtímalist frá Íslandi
Nordatlantens Brygge, Norðurbryggja.
Opnun föstudaginn 30. nóvember kl. 16:00-18:00.


Sýninguna opnar Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Á henni verða sýnd verk frá áttunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag eftir ellefu samtímalistamenn frá Íslandi sem vinna með ólíka miðla. Titillinn vísar til hinna óútreiknanlegu veðurskilyrða á Íslandi sem orsakast af hæðum og lægðum sem ganga á víxl yfir Norður-Atlantshafið. Verkin eru með persónulegum og ljóðrænum undirtón, en leitast er við að gefa margþætta mynd af íslenskri menningu gegnum sögu samtímalistar landsins. Hér munu áhorfendur upplifa skin og skúri, uppgang og hnignun auk hæða og lægða lífsins og listarinnar.

HÁTT OG LÁGT leiðir saman listamenn af ólíkum kynslóðum sem allir hafa það sameiginlegt að beita þverfaglegri nálgun við listsköpun þar sem aðferðir ólíkra greina sameinast, hvort sem er úr myndlist, ljóðlist eða sviðslistum, tónlist, dansi eða leikhúsi. Sýnd eru verk eftirtaldra listamanna: Arna Óttarsdóttir, Arnar Ásgeirsson, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Birgir Andrésson, Hildur Hákonardóttir, Magnús Pálsson, Sigurður Guðjónsson, Una Björg Magnúsdóttir, Örn Alexander Ámundason og Una Margrét Árnadóttir, Þóranna Dögg Björnsdóttir í samstarfi við Nicolas Kunysz og Veðurstofu Íslands. Sýningarstjóri er Heiðar K. Rannversson, sýningarstjóri á Nordatlantens Brygge.


Videóverk Ólafs Elíassonar - Vörpun á Norðurbryggju

Í tengslum við sýninguna verður videóverki listamannsins Ólafs Elíassonar með landslagsmyndum frá Íslandi varpað á framhlið hússins á Norðurbryggju. Verkið mun flæða á húsveggnum kl. 16:00-20:00 sem og laugardaginn 1. desember kl.15:00-20:00.


Viðburðurinn er skipulagður af sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í samvinnu við Nordatlantens Brygge og Studio Olafur Eliasson, í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. 


Hátíðardagskrá laugardaginn 1. desember kl. 15:00-20:00.
Nordatlantens Brygge, Norðurbryggja

Dagskráin hefst með ávarpi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, sem hann flytur frá Bessastöðum. Að loknum kórsöngi munu sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Benedikt Jónsson, og fyrrverandi menntamálaráðherra Danmerkur, Bertel Haarder, flytja ávörp. Að því loknu hefst fjölbreytt og vegleg hátíðardagskrá.

Hátíðardagskráin er sniðin að fólki á öllum aldri. Nokkrir af ástsælustu skemmtikröftum íslensku þjóðarinnar stíga á stokk og má þar nefna Sigríði Thorlacius, Ævar vísindamann og JóaPé og Króla, ásamt uppistandi frá Dóra DNA og Sögu Garðarsdóttur. Þar að auki munu íslensku kórarnir í Kaupmannahöfn, Dóttir, Hafnarbræður, Kvennakórinn og Staka, flytja samsöng undir merkjum Fullveldiskórsins. Þá munu verða til sýnis verk nemenda við Íslenskuskólann í Kaupmannahöfn sem þeir hafa unnið í tilefni aldarafmælis fullveldisins.

Samsýning íslenskra listamanna, Hátt og lágt verður opin og boðið verður upp á leiðsögn um sýninguna af sýningarstjóra hennar, Heiðari K. Rannverssyni. Jafnframt verður videóverki listamannsins Ólafs Elíassonar með landslagsmyndum frá Íslandi varpað á framhlið hússins á Norðurbryggju. Verkið mun flæða á húsveggnum kl. 15:00-20:00 og mun ramma inn hina fjölbreyttu dagskrá á þessum hátíðardegi íslensku þjóðarinnar. 

Viðburðurinn er skipulagður af sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í samstarfi við Dansk-íslenska félagið og Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn og í samvinnu við Nordatlantens Brygge og Studio Olafur Eliasson, í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics