Hoppa yfir valmynd

Forsætisráðherra flutti ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ávarp á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Leiðtogafundurinn er haldinn að frumkvæði aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, þar sem hann kallar eftir forystu leiðtoga heims í aðgerðum gegn loftslagsvánni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Skilaboðin frá hverfandi jöklum eru alvarleg viðvörun. En þau mega ekki vekja örvæntingu. Við vitum að fólk getur farið til tunglsins ef það vill. Ef við viljum bjarga jörðinni getum við það. En til þess þurfum við von, samvinnu, græna tækni og einbeittan vilja til að segja skilið við mengandi venjur og taka upp nýja siði.

Við þurfum öll að gera betur. Vísindin segja okkur það. Og skilaboð ungu kynslóðarinnar eru skýr. Við höfum enga afsökun fyrir því að bregðast ekki við strax.“

Í ræðu sinni tilkynnti forsætisráðherra um að íslensk stjórnvöld ætli að tvöfalda framlög sín í Græna loftslagssjóðinn. Sjóðurinn fjármagnar loftslagsaðgerðir í lág- og meðaltekjuríkjum og gegnir þannig lykilhlutverki við að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Með hækkuninni munu framlög Íslands nema 2 milljónum Bandaríkjadala á tímabilinu 2021-2025.

Þá átti forsætisráðherra einnig fund með forseta Namibíu, Hage Geingob, og Ibrahim Thiaw, framkvæmdastjóra Samnings Sameinuðu þjóðanna gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD). Rætt var um samstarf Íslands og Namibíu sem hafa sameiginlega frá árinu 2013 leitt vinahóp 23 ríkja sem öll hafa það markmið að sporna gegn eyðimerkurmyndun, landeyðingu og þurrkum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun einnig funda með Alexander Van der Bellen, forseta Austurríkis, og Brigitte Bierlein, kanslara Austurríkis.

 

Ræða forsætisráðherra á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna  

Prime minister's address at the UN Climate Action Summit


  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics