Hoppa yfir valmynd

Undirritun samnings um samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála

Viðar Helgason hjá Íslenska Orkuklasanum, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ríkharður Ibsen hjá GRP og Ari Kristinn Jónsson rektor HR - mynd

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag samning við Háskólann í Reykjavík, Orkuklasann og GRP ehf., um samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála. Undanfarin ár hafa íslenski Orkuklasinn og GRP ehf., ásamt stjórnvöldum, verið í samstarfi við Cornell háskóla í Bandaríkjunum með það að markmiði að vinna að þekkingaryfirfærslu í orkumálum og sjálfbærni, auk samstarfs í vísindarannsóknum og menntamálum. Með samningnum er efnt til áframhaldandi samstarfs við Cornell háskóla til næstu fjögurra ára og er markmiðið að samstarfið muni leiða af sér aukin tækifæri í nýsköpun, þekkingaryfirfærslu, sjálfbærni, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag.

Í samningnum er m.a. kveðið á um eftirfarandi verkefni:

  1. Undirbúningur úttekta á sjálfbærni Íslands; úttekt á orkukerfi Íslendinga, landbúnaðarkerfi og sjávarútvegskerfi.
  2. Greining á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi.
  3. Aukið samstarf við Cornell í menntamálum og rannsóknum og frekari tengingar við háskólaumhverfið á Íslandi.
  4. Uppsetning á námskeiðum um græna orku og sjálfbærni tengt sérstöðu Íslands.
  5. Stuðla að samstarfi við alþjóðlega rannsóknarsjóði vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna tengdum loftlagsmálum, sjálfbærni og grænni orku.
  6. Setja upp sjálfbæra miðstöð endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi í samstarfi við Cornell og tengda aðila.
  7. Samstarf í markaðsmálum með áherslu á sérstöðu Íslands í orkumálum og sjálfbærni.

Samstarfsverkefnið er vistað hjá Orkuklasanum en sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með verkefninu undir forystu Háskólans í Reykjavík.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Við höfum átt gott samstarf við Cornell háskóla á undanförnum árum og með þessum samningi þá römmum við það samstarf nánar inn til næstu fjögurra ára, með aðkomu Háskólans í Reykjavík, Orkuklasans og GRP. Í samstarfinu felast fjölmörg tækifæri á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftlagsmála og má þar nefna greiningu á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi og úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum.“

 

Tags

9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

7. Sjálfbær orka

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics