Hoppa yfir valmynd

Ísland kjörið í framkvæmdastjórn alþjóðahaffræðinefndarinnar

Sendinefnd Íslands á aðalráðstefnunni: Vladimir Ryabinin, framkvæmdastjóri IOC, Kristín Halla Kristinsdóttir frá fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO, Hrönn Egilsdóttir sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun  og formaður sendinefndar og Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar - mynd

Ísland hlaut í gær kjör til setu í alþjóðahaffræðinefnd Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (Intergovernmental Oceanographic Commission of UNESCO) fyrir tímabilið 2023-2025. Kosningarnar fóru fram á aðalfundi í höfuðstöðvum UNESCO í París. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland gegnir þessu hlutverki eftir að hafa gerst aðili að nefndinni árið 1962. Aðildarríki alþjóðahaffræðinefndarinnar IOC-UNESCO eru 150 talsins og eiga fjörutíu ríki sæti í framkvæmdastjórn.

Starfsemi alþjóðahaffræðinefndarinnar byggir á alþjóðasamstarfi á sviði hafvísinda og er hún meðal annars í forystu fyrir Áratug hafsins (Ocean Decade) á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Eitt af hlutverkum nefndarinnar er að fjalla um og móta stefnu hvernig taka skuli á stórum áskorunum tengdum loftslagsbreytingum, súrnun sjávar, líffræðilegri fjölbreytni í hafi, mengun sjávar, plastmengun í hafi og sjávarumhverfisvernd.

Á vettvangi IOC er unnið grundvallarstarf á hafsviðinu sem snertir mikilvæga hagsmuni Íslands, m.a. efling rannsókna og nýsköpunar með áherslu á stuðning við framfylgd heimsmarkmiðs 14 um hafið og að ákvarðanir þar að lútandi séu teknar á vísindalegum grunni.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
    Sendinefnd Íslands á aðalfundi IOC
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
    Aðalfundur IOC

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics