Starfsemi GRÓ kynnt á vettvangi UNESCO í París
Fulltrúar GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, kynntu í síðustu viku starfsemi stofnunarinnar á vettvangi UNESCO, Mennta, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í París. Með í för voru Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður GRÓ jafnréttisskólans, og Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður GRÓ landgræðsluskólans. Haldnir voru kynningarviðburðir fyrir fastafulltrúa helstu samstarfsríkja skólanna tveggja og annarra tengdra ríkja, sem og starfsfólk viðeigandi sviða UNESCO. Markmiðið með kynningunum var fyrst og fremst að vekja athygli á nýtilkomnu samstarfi skólanna við UNESCO.
Þekkingarmiðstöðin, sem var stofnuð árið 2019 heyrir undir utanríkisráðuneytið, hefur starfað undir merkjum UNESCO frá árinu 2020. Hún sameinar fjóra skóla; jafnréttisskólann, jarðhitaskólann, landgræðsluskólann og sjávarútvegsskólann. Hlutverk GRÓ er að byggja upp færni og efla þekkingu á sviðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í þróunarlöndum, sem og á átakasvæðum. Skólarnir bjóða upp á 5-6 mánaða þjálfun hver á sínu fagsviði. Þá vinna nemendur rannsókn undir leiðsögn leiðbeinanda.
Í kynningunum var lögð áhersla á mikilvægi þessara málaflokka hvað varðar þróun og sjálfbærni og bent á þau jákvæðu áhrif sem skólarnir hafa nú þegar haft, en tæplega 1500 nemendur hafa lokið þjálfun við skólana fjóra.