Ráðherrafundur OECD
Árlegum ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) lauk í París í dag. Á fundinum var rætt um áskoranir og tækifæri sem fólgin eru í stafrænu byltingunni og á hvaða hátt aðildarríkin gætu sem best búið sig undir þær breytingar sem framundan eru. OECD hefur að undanförnu unnið ötullega að greiningum og stefnumótun á áhrifum stafrænnar tækni á stöðugt fleiri sviðum, þ. á m. á friðhelgi einkalífs, viðskipti, skattlagningu, menntun og hæfni.
Á fundinum voru samþykkt nokkur ný tilmæli og stefnur, þ. á m.
- stefna um gervigreind (e. Recommendation on Artificial Intelligence),
- áætlun um hæfni (e. Skills strategy)
- samþykktir um frelsi þjónustuviðskipta og fjármagnshreyfinga (e. Revision of the Codes of Liberalisation) og
- yfirlýsing um nýsköpun í opinbera geiranum (e. Declaration on Public Sector Innovation).
Þá fór einnig fram sérstök umræða um hvernig OECD geti sjálft brugðist við stafrænum breytingum og lagði Ísland áherslu á að þverlæg verkefni gætu gefið nýja og skarpari sýn á þau flóknu álitaefni sem aðildarríkin standa frammi fyrir.
Sendinefnd Íslands skipuðu Kristján Andri Stefánsson fastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, formaður, Jónas Haraldsson varafastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, Sigurður H. Helgason skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Páll Ásgeir Guðmundsson aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra.
Kristján Andri Stefánsson, fastafulltrúi Íslands hjá OECD
Ángel Gurría, aðalframkvæmdastjóri OECD og Peter Pellegrini, forsætisráðherra Slóvakíu við opnun ráðherrafundar OECD 22. maí 2019