Hoppa yfir valmynd

Eftirtektarverður samdráttur í urðun á höfuðborgarsvæðinu skilar umtalsverðum samdrætti í losun

Reikna má með að aðgerðir SORPU síðustu misseri til að draga úr urðun úrgangs í Álfsnesi muni í heild sinni verða til þess að draga úr árlegri losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands um allt að 73.500 tonn CO2-ígilda á næstu 10-15 árum. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn.

Samdrátturinn jafnast á við að taka tæplega 37.000 fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götum landsins, eða sem samsvarar nærri öllum orkuskiptum fólksbílaflotans sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum.  Þá jafngildir samdrátturinn sparnaði upp á allt að 7,5 m.kr. á ári við kaup á kolefniseiningum, ef miðað er við verðið sem ríkissjóður greiddi fyrir slíkar einingar í fyrra.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs nam 200 þúsund tonnum af CO2-ígildum árið 2022, eða rúmlega 7% af losun á beinni ábyrgð Íslands það ár. Það er því mikilvægt að draga úr urðun úrgangs eigi Ísland að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Eitt meginmarkmiða í stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi, er enda að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs og með því draga úr urðun og hætta urðun lífræns úrgangs. 

Til langs tíma hefur flokkun og endurvinnsla heimilisúrgangs sem fellur til hér á landi verið of lítil.  Veruleg breyting varð á þessu í kjölfar gildistöku svonefndra hringrásarlaga í byrjun árs 2023. Þar er sérstök söfnun heimilisúrgangs, m.a. á pappír, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum, gerð að skyldu og með því þjónustustigi stillt hátt til að stuðla að þátttöku íbúa. 

89% samdráttur í urðun

Samkvæmt upplýsingum frá SORPU bs., sem hefur með höndum meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu og hefur í rúm þrjátíu ár rekið langstærsta urðunarstað landsins í Álfsnesi, dróst urðun þar saman um tæp 89% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, miðað við sama tímabil í fyrra.  Þennan árangur má rekja til þess að sérstök söfnun lífúrgangs var hafin á höfuðborgarsvæðinu um mitt ár 2023, og úrgangurinn meðhöndlaður í gas- og jarðgerðarstöðinni GAJU í stað urðunar, og þess að hætt var að urða lífrænan úrgang í Álfsnesi í upphafi þessa árs, um leið og SORPA hóf útflutning á blönduðum úrgangi til orkuvinnslu í Svíþjóð.  Um helmingur af losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs hér landi stafaði frá urðunarstaðnum í Álfsnesi.

Moltuhaugur í Gaiu.

Moltuhaugur í Gaiu. Söfnun lífúrgangs á höfuðborgarsvæðinu hefur farið vel af stað.

Samkvæmt gögnum SORPU hefur sérstök söfnun lífúrgangs farið afar vel af stað á höfuðborgarsvæðinu.  Magn matarleifa í blönduðum úrgangi (gráu tunnunni) minnkaði um 65% við þessa breytingu og hreinleiki lífúrgangsins sem fer til meðhöndlunar í GAJU er 98%.  Síðastliðið ár var jafnframt metár í framleiðslu og sölu á metani, sem er verðmæt, græn orka til notkunar í samgöngum og iðnaði.  Allt það metan sem er framleitt er fullnýtt, auk þess sem moltan sem framleidd er í GAJU uppfyllir sett skilyrði sem jarðvegsbætir. 

Þá hefur sérstök söfnun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu nú þegar skilað þeim árangri að magn plastúrgangs í blönduðum úrgangi hefur minnkað um 40% og magn pappírs og pappa um 25%.  Enn fremur hefur verkefnið skilað aukinni samræmingu við flokkun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu og leiddi viðhorfskönnun sem gerð var meðal íbúa svæðisins í lok árs 2023 í ljós að 90% flokka lífúrgang, 94% flokka plastumbúðir og 98% flokka pappír og pappa.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er tilefni til þess að þakka íbúum á höfuðborgarsvæðinu fyrir að standa sig með stakri prýði þegar kemur að því að flokka lífrænan úrgang. Almenningur getur nú verið viss um að það er að skila sér, sem eru frábærar fréttir. Við gerum ráð fyrir því að sérstök söfnun SORPU á lífúrgangi komi á þessu ári í veg fyrir losun á 19.200 tonnum af CO2 ígildum. Það jafngildir losun á við tæplega 10 þúsund bensín og dísel bíla. Það munar sannarlega um það.“

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics