Hoppa yfir valmynd

Kristján Þór heimsótti sjávarútvegssýninguna í Qingdao

Kristján Þór átti fund með Meng Fanli, borgarstjóra Qingdao. - mynd

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti í dag sjávarútvegssýninguna China Fisheries & Seafood Expo sem nú stendur yfir í Qingdao í Kína. Íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í sýningunni frá árinu 1996 og að þessu sinni taka 11 fyrirtæki þátt auk Íslandsstofu. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundir í Asíu og ein af tveimur stærstu sjávarútvegssýningum í heimi með yfir 29.000 gesti og um 1500 sýnendur.

Opinn fundur með ráðherrum Noregs og Kína

Kristján Þór hefur jafnframt nýtt ferðina til að funda með stjórnvöldum í Kína, m.a. til að fylgja eftir fríverslunarsamning sem tók gildi milli landanna árið 2014. Þannig tók hann þátt í opnum fundi með þeim Harald Tom Nesvik, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Yu Kangzheng, varalandbúnaðarráðherra Kína. Þá átti hann fund með Meng Fanli, borgarstjóra Qingdao.

Viðskipti verði sem greiðust

Ísland varð fyrsta ríki Evrópu til að gera fríverslunarsamning við Kína árið 2012. Í kjölfar úttekta sem fulltrúar kínverskra heilbrigðisyfirvalda hafa framkvæmt hér á landi hafa verið gerðir samningar um hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum, fiskimjöli, lambakjöti og laxi. Kristján Þór hefur í ferð sinni í Kína fundað með stjórnvöldum í Peking til að fylgja eftir þeim áföngum sem náðst hafa en jafnframt lagt áherslu á frekari þróun samningsins. Þá hefur Kristján Þór lagt sérstaka áherslu á að kínversk stjórnvöld votti fleiri landbúnaðarfurðir og einfaldi regluverk til að tryggja sem greiðust viðskipti milli landanna með landbúnaðar- og sjávarafurðir. 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Á sýningu sem þessari kemur skýrt fram hin harða alþjóðlega samkeppni sem blasir við íslenskum sjávarútvegi á hverjum degi. Hér eru yfir 1.500 sýnendur, um 30 þúsund gestir og sýningin er önnur af tveimur stærstu sjávarútvegssýningum í heimi. Fólk og fyrirtæki eru hér að reyna að koma sínum vörum á framfæri – barist er um hylli kaupenda.

Velgengni íslensks sjávarútvegs í þessari samkeppni er ekki náttúrulögmál. Til að standast hana er lykilatriði að íslenskur sé samkeppnishæfur. Það gerum við m.a. með hóflegri en sanngjarnri gjaldtöku, einföldu og skilvirku regluverki og öflugu markaðsstarfi. Hér er ekki einungis í húfi hagsmunir einstakra fyrirtækja, heldur um leið sjómanna, fiskvinnslufólks og byggðarlaga – raunar samfélagsins alls.“


  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2

Tags

15. Líf á landi
14. Líf í vatni

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

14. Líf í vatni

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics