Hoppa yfir valmynd

Ábyrgðarmenn heyra sögunni til

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um breytingar á Menntasjóði námsmanna var samþykkt á Alþingi skömmu fyrir þinglok. Með samþykkt frumvarpsins hefur ábyrgðarmannakerfi námslána verið fellt úr gildi að fullu og skilyrði fyrir námsstyrk verið rýmkuð.

Markmið frumvarpsins var að bregðast við annmörkum á fyrri lögum um Menntasjóð námsmanna sem reifaðir voru í skýrslu sem kynnt var undir lok síðasta árs. Áslaug Arna hefur boðað að heildarendurskoðun á Menntasjóði námsmanna fari fram síðar á árinu og er undirbúningur slíkrar endurskoðunar þegar hafinn í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

„Ég veit til þess að niðurfelling ábyrgðarmannakerfisins mun skipta fjölda fólks miklu máli enda bitnaði það verst á þeim sem höllustum fæti standa. Dæmi voru jafnvel um að einstaklingar bæru ábyrgð á námslánum fólks sem það var ekki í neinum tengslum við. Það er því einstaklega ánægjulegt að okkur hafi tekist að fella þetta fyrirkomulag úr gildi enda ættu námsmenn sjálfir að standa skil á greiðslum námslánanna sinna,“ segir Áslaug Arna. 

Sveigjanleiki aukinn

Með samþykkt frumvarpsins voru skilyrði fyrir námsstyrk einnig rýmkuð, en fyrri lög takmörkuðu möguleika námsmanna til að flytja sig á milli námsbrauta. Gagnrýnt hafði verið að skilyrði fyrir styrkveitingu miðuðu við skipulag þeirrar námsbrautar sem á endanum var lokið enda er tiltölulega algengt að námsmenn skipti um braut að loknu fyrsta námsárinu. Þá velja námsmenn í auknum mæli að stunda nám á ólíkum brautum og fræðasviðum, en slíkt samræmdist ekki kröfum fyrri laga um styrkveitingar.

Frumvarpið sem samþykkt var kveður á um að námsmenn geti áunnið sér styrk vegna eininga af tveimur námsleiðum í stað einnar áður. Nemendur sem hefja nám í einni grein geti þannig skipt yfir í annað nám en notið réttinda til námsstyrks í fyrra náminu samhliða nýja náminu. Svo dæmi sé tekið getur nemandi sem lokið hefur fyrsta ári í lyfjafræði ákveðið að hefja nám í hjúkrunarfræði. Með því að ljúka því námi í samræmi við skipulag námsins, auk fyrsta ársins í lyfjafræðinni, nær 30% niðurfellingin bæði til lyfjafræði- og hjúkrunarfræðinámsins.  Þessi réttur gildir aðeins einu sinni á þeim tíma sem lánþegi þiggur lán hjá Menntasjóðnum.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics