Global Strategy Group (GSG) í OECD
GSG er strategískur fundur sem haldinn er árlega og setur tóninn fyrir það sem koma skal á árlegum ráðherrafundi OECD ríkja í maí á næsta ári. Grikkland var í forsvari fyrir GSG í ár og Niki Kerameaus, innanríkisráðherra Grikklands settur formaður fundarins. Fyrir Íslands hönd sótti Ragnar G. Kristjánsson skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fundinn, ásamt Unni Orradóttur fastafulltrúa Íslands gagnvart OECD og Pétri Skúlasyni Waldorff varafastafulltrúa.
Á fundinum var strategískri framtíðarsýn beitt og fundargestir tóku fyrir fjórar mismunandi sviðsmyndir, misdökkar, og veltu fyrir sér þeim viðbrögðum sem OECD og aðildarríki stofnunarinnar þyrftu að taka inn í sína stefnumótun.
Var sjónum einkum beint að áhrifum loftslagsbreytinga, aukinnar einangrunarstefnu, pólaríseringar og óvissu í alþjóðakerfinu og bakslagi í heimsmarkmiðunum. Þá var rætt um mikilvægi alþjóðaviðskipta, sameiginlegra staðla og virkra aðfanga- og virðiskeðja. Heimsmarkmiðin, tækniframfarir í atvinnulífinu og sjálfbærir framleiðslu- og neysluhættir kalla á miklar fjárfestingar af hálfu hins opinbera og einkageirans, nýjar lausnir og árangursríks samtals á milli þjóða.