Heimsókn fastafulltrúa Íslands gagnvart UNESCO til Úkraínu
Fastafulltrúar gagnvart UNESCO - Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna - sem eiga sæti í Vinahópi Úkraínu heimsóttu Kænugarð dagana 23.-26. apríl sl. Auðbjörg Halldórsdóttir, fastafulltrúi Íslands, fór ásamt fastafulltrúum Eystrasaltsríkjanna, Kanada og Póllands.
Er um að ræða fyrstu formlegu heimsókn fastafulltrúa UNESCO eftir innrás Rússlands í Úkraínu og fylgir hún á eftir heimsókn framkvæmdastýru stofnunarinnar þann 3. apríl sl. Markmið heimsóknarinnar var að sýna úkraínskum stjórnvöldum stuðning vegna innrásarstríðs Rússlands og kynna sér aðstæður sem heyra undir ábyrgðarsvið UNESCO, sem tengjast aðgangi að menntun, skrásetningu menningarminja og kortleggingu á eyðileggingu þeirra og öryggi fjölmiðlafólks í landinu.
Sendinefndin fundaði með Oleksandr Tkachenko, ráðherra menningar- og upplýsingamála, þar sem hann ræddi áherslur á sviði menningarmála. Eitt helsta verkefnið sem stendur yfir er að gera heildstætt yfirlit yfir helstu staði tengda menningarminjum og listum í landinu en yfir 1.300 menningarminjar hafa orðið fyrir miklum skemmdum eða eyðileggingu á þeim svæðum sem Rússar hafa herjað á.
Sendinefndin fundaði einnig með Vadym Guttsait, ungmenna- og íþróttamálaráðherra, í Avangard Vladyslav Siryk íþróttamiðstöðinni sem eyðilagðist í eldflaugaárás Rússlands. Ráðherra lagði áherslu á að börn og ungmenni geti stundað íþróttir til stuðnings andlegrar og líkamlegrar heilsu og er stuðningur UNESCO í þessum málum mikilvægur.
Þá var fundað með Oksen Lisovyi, menntamála- og vísindamálaráðherra, sem ræddi mikilvægi menntunar en Úkraína hefur orðið fyrir miklum atgervisflótta í kjölfar stríðsins og verður mikil áskorun að viðhalda tengslum við börn og ungmenni sem hafa flúið og laga fólk aftur að borgaralegu lífi á nýjan leik að stríðinu loknu. UNESCO hefur lyft grettistaki í menntamálum í Úkraínu og hefur m.a. aðstoðað við að afhenda 50 þúsund fartölvur til menntastofnana, stutt að uppbyggingu fjarnáms og þjálfað 15 þúsund sálfræðinga sem starfa í skólakerfinu.
Fastafulltrúar funduðu einnig með Oleksandr Krasnolutskyi, aðstoðar umhverfis- og auðlindaráðherra, þar hann ræddi meðal annars alvarleg áhrif stríðsins á umhverfið. Mikil þörf er á aðstoð í baráttunni við skógarelda, mengun vatnsbóla og verndun lífríkisins. Þá er mikilvægt að Úkraína fái aðstoð við sprengjuleit og sprengjueyðingu.
Sendinefndin heimsótti bæina Bucha og Irpin og lögðu blómvendi við Memorial Wall í Kænugarði til minningar um látna í stríðinu. Hún fékk þá kynningu í Ukrainian Humanities Lyceum þar sem fastafulltrúum gafst færi á að ræða við nemendur um lífið og framtíðina. Að lokum hitti hópurinn Herman Makarenko, hljómsveitarstjóra og einn friðarlistamanna UNESCO, í National Tchaikovsky Academy of Music þar sem hann ræddi úkraínska tónlistararfleið og ungmennastarf.