Nýtt alþjóðlegt verkefni um kortlagningu aðgerða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda á vettvangi OECD
OECD hefur hleypt af stokkunum nýju alþjóðlegu verkefni um kortlagningu aðgerða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda (IFCMA). Ísland, sem aðildarríki OECD, tekur þátt í IFCMA í gegnum fjármála- og efnahagsráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið og fastanefnd Íslands gagnvart OECD í París. Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu var fulltrúi Íslands á upphafsfundi IFCMA, sem haldin var í París í síðustu viku.
Til þessa hafa ekki verið til nein alþjóðleg, alhliða og kerfisbundin verkfæri sem safna upplýsingum um stefnumótun og aðgerðir ríkja til að draga úr losun, né kerfisbundið mat á áhrifum aðgerða. IFCMA (Inclusive Forum on Carbon Mitigation Approaches) er ætlað að fylla í þessa eyðu. Verkefnið á að hafa náin tengsl við þá vinnu sem unnin er hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC).
IFCMA er ætlað að ná utan um þetta mikilvæga og flókna málefni og stuðla að upplýsingagjöf milli ríkja, með það að markmiði að bera kennsl á skilvirkar aðgerðir að teknu tilliti til aðstæðna og tækifæra til samræmingar í stefnumótun á þessu sviði til lengri tíma litið.
IFCMA nær vel út fyrir aðildarríkjahóp OECD sem telur 38 ríki. Yfir 100 ríki voru skráð á upphafsfund IFCMA og samsvara þau yfir 90% heimshagkerfisins og rúmlega 85% útblásturs á heimsvísu. Eftir á hins vegar að koma í ljós hversu mörg ríki munu skuldbinda sig til að taka þátt í verkefninu.
Ákvörðun um að OECD skyldi ríða á vaðið með IFCMA má rekja til skattafundar G20 ríkja 2021 og til ráðherrafundar OECD (MCM) 2022, en eins og vitað er þá virða mengun og loftlagsbreytingar ekki landamæri og stefnumótun og samræming aðgerða þarf að eiga sér stað á alþjóðavísu og gegnum alþjóðakerfið.
Hér að neðan má sjá vídeó sem sýnt var við upphaf fundarins þar sem Fumion Kishida, forsætisráðherra Japan, Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Sri Mulyani Indrawati, fjármálaráðherra Indonesíu, Jeremy Hunt, fjármálaráðherra Bretlands, Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, Han Duck-soo, forsætisráðherra Suður Kóreu, og Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri ESB í efnahagsmálum, taka öll saman höndum með framkvæmdastjóra OECD, Mathias Cormann, og ýta verkefninu úr vör.