Hoppa yfir valmynd

Mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaun í verkkeppni Viðskiptaráðs og háskólanna

Ráðherra ásamt verðlaunahöfum og framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs - myndHaraldur Guðjónsson

100 ára afmæli Viðskiptaráðs Íslands var haldið hátíðlegt þann 21. september síðastliðinn og var mennta- og menningarmálaráðherra meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra meðal annars:
„Frá stofnun hefur Viðskiptaráð Íslands verið bakhjarl menntunar með þátttöku í uppbyggingu íslensks menntakerfis. Menntasjóður Viðskiptaráðs, sem gegnir því meginhlutverki að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, hefur styrkt íslenska nemendur sem leggja stund á framhaldsnám við erlenda háskóla og veitt styrki til fjölda rannsóknarverkefna sem tengjast framþróun menntunar og eflingu íslensks atvinnulífs. Það er fagnaðarefni að áhersla á menntun, rannsóknir og nýsköpun hefur verið rauður þráður í starfsemi Viðskiptaráðs frá upphafi.“

Í tilefni af afmælinu stóð Viðskiptaráð fyrir verkkeppni (e. case competition) í fyrsta sinn. 4-5 manna lið fengu eina helgi til þess að móta hugmynd er snéri að spurningunni „Hvernig verður Ísland tæknivæddasta land í heimi árið 2030?”
Með stuðningi Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands voru 11 lið valin til þátttöku. Keppendur komu úr 16 mismundandi sérfræðigreinum. Hugmyndirnar voru frumlegar og fjölbreyttar en meðal þeirra má nefna byltingu í samgöngumálum með svokölluðum þythylkjum, nútímalega íslenskukennslu með snjallsímaforriti og nútímavæðingu landbúnaðarkerfisins.
Sigurliðið lagði fram hugmynd um gjörbyltingu í heilbrigðiskerfinu með því að nýta gervigreind og var áhersla lögð á að fyrirbyggja sjúkdóma í stað þess að meðhöndla þá eftir að þeir koma fram. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti sigurliðinu verðlaunin en liðið samanstóð af Daníel Alexanderssyni, Viðari Róbertssyni, Davíð Þór Jónssyni, Alexander Jósep Blöndal og Vilhjálmi Pálmasyni.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics