Hoppa yfir valmynd

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sendir WFP heillaóskir vegna friðarverðlauna Nóbels

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hlaut í dag friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu stofnunarinnar gegn hungri, fyrir að stuðla að bættum aðstæðum fyrir friði á átakasvæðum, og fyrir aðgerðir til að afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum. „Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur um langt skeið verið ein af áherslustofnunum Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð og friðarverðlaun Nóbels eru að mínum dómi mjög verðskulduð viðurkenning fyrir ómetanlegt starf á átakasvæðum sem stuðlar að friði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem sendi WFP formlegt heillaskeyti í morgun, auk þess að óska stofnuninni til hamingju á Twitter.

Íslensk stjórnvöld veita árleg kjarnaframlög til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, stærstu mannúðarsamtaka heims í baráttunni gegn hungri, en einnig er brugðist við neyðarköllum frá stofnunni eftir föngum. Framlög Íslands á þessu ári eru þegar 137 milljónir króna. WFP starfar í 88 löndum og aðstoðar tæplega eitt hundrað milljónir manna á ári hverju sem búa við alvarlegt matvælaóöryggi og hungur.

„Norska Nó­bels­nefnd­in leggur áherslu á að aðstoð sem eyk­ur fæðuör­yggi dreg­ur ekki aðeins úr hungri held­ur stuðlar einnig að því að auka horf­ur á stöðug­leika og friði. Mat­væla­áætl­un­in hef­ur tekið for­ystu­hlut­verk í samþætt­ingu mannúðar­starfs og friðarum­leit­ana með frumkvöðlaverkefnum í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu,“ sagði í til­kynn­ingu frá Nóbelsnefndinni í Osló í morgun.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur leitt til fjölgunar jarðarbúa sem hafa vart til hnífs og skeiðar. WFP hefur aldrei í sögunni veitt fleirum matvælaaðstoð en á þessu ári. Ætlunin er að ná til 138 milljóna einstaklinga en þegar hafa um 85 milljónir manna notið matvælaaðstoðar stofnunarinnar. David Beasley framkvæmdastjóri WFP sagði fyrir nokkru á fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að án aukinna framlaga væri heimurinn á barmi hungurfaraldurs.

Höfuðstöðvar Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna eru í Róm. Friðarverðlaunin verða formlega afhent 10. desember næstkomandi.

Tags

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

16. Friður og réttlæti

17. Samvinna um markmiðin

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics