Fundir utanríkisráðherra í París
Í stuttri heimsókn utanríkisráðherra í byrjun vikunnar undirritaði hann með Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra UNESCO, samning um að Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfi undir merkjum UNESCO. Í miðstöðinni koma saman fjórir skólar sem starfræktir hafa verið á Íslandi árum saman: Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn. Á fundi þeirra af þessu tilefni var rætt um farsælt samstarf Íslands og UNESCO í bráð og lengd, þátttöku og áherslur Íslands í starfsemi stofnunarinnar og framboð Íslands til framkvæmdastjórnar UNESCO 2021. Jafnframt bauð utanríkisráðherra aðalframkvæmdastjóranum að heimsækja Ísland á næsta ári.
Utanríkisráðherra heimsótti einnig öldungadeild franska þingins (Le Sénat) og fundaði með André Gattolin formanni Norðurlandanefndar öldungadeildarinnar og Jean Bizet formanni Evrópunefndar öldungadeildarinnar. Á fundi þeirra var m.a. rætt um málefni norðurslóða, formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, öryggi í N-Atlantshafi, Brexit, EES-samstarfið og tvíhliða tengsl Frakklands og Íslands.
Loks átti utanríkisráðherra fund með fulltrúum stjórnar Fransk-íslenska viðskiptaráðsins, Arnaldi Ólafssyni varaformanni og Jacques Cardillac. Á fundi þeirra var rætt um helstu verkefni sl. árs, t.d. BREXIT ráðstefnu sem FRÍS og sendiráðið stóðu að vegna heimsóknar stjórnar Samtaka iðnaðarins fyrr á árinu. Einnig var rætt um viðburði næsta árs og þá sérstaklega 30 ára afmæli FRÍS, sem verður haldið upp á með viðburðum í París í maí 2020, en viðskiptaráðið var sett á laggirnar árið 1990 í kjölfar fundar þáverandi forseta ríkjanna tveggja, Vigdísar Finnbogadóttur og François Mitterrand.