Ályktun Íslands um Íran samþykkt í atkvæðagreiðslu í mannréttindaráðinu
Vetrarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna lýkur í dag en þetta er fyrsta fundalotan sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki ráðsins tímabilið 2025 til 2027.
Mannréttindaráðið afgreiddi alls 32 ályktanir að undangengnum samningaviðræðum síðustu sex vikna. Kosið var sérstaklega um tólf ályktanir og ber þar helst að nefna endurnýjun þriggja ályktana um Palestínu og ályktanir um ástand mannréttinda í Belarús, Níkaragva, Suður-Súdan, Sýrlandi og Úkraínu vegna innrásar Rússlands.
Ísland leiddi kjarnahóp fimm ríkja sem lagði fram ályktun um stöðu mannréttinda í Íran. Ályktunin var samþykkt örugglega í atkvæðagreiðslu með stuðningi ríkja þvert á heimsálfur.
„Það er uppörvandi að sjá þann mikla stuðning sem ályktun undir forystu Íslands um mannréttindi í Íran hlaut. Með samþykki ályktunarinnar sýnir mannréttindaráðið stuðning við fólkið í Íran og veitir von um að réttlæti nái fram að ganga vegna víðtækra mannréttindabrota sem framin hafa verið þar í landi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Ályktunin var samþykkt með 24 atkvæðum, átta greiddu atkvæði gegn og 15 sátu hjá.
Ályktunin endurnýjar og víkkar umboð rannsóknarnefndar um Íran sem Ísland ásamt Þýskalandi átti frumkvæði að í kjölfar mótmæla á landsvísu haustið 2022 eftir dauða Jina Mahsa Amini, baráttukonu fyrir mannréttindum. Þá er umboð sérstaks skýrslugjafa sem vaktar stöðu mannréttinda í landinu með ríka áherslu á dauðarefsingar og aftökur endurnýjað. Rannsóknarnefndin og sérstaki skýrslugjafinn afla upplýsinga um fjölda og eðli mannréttindabrota og skrásetja þau og gegna þannig mikilvægu hlutverki í viðleitni til að sjá til þess að viðeigandi aðilar sæti ábyrgð vegna mannréttindabrota í Íran.
Vetrarlota mannréttindaráðsins hófst 24. febrúar sl. með svokallaðri ráðherraviku og tók utanríkisráðherra þar þátt, átti fundi með fulltrúum alþjóðastofnana, félagasamtaka og annarra ríkja og flutti einnig stefnuræðu Íslands í mannréttindamálum. „Mannréttindaráðið er gríðarlega mikilvægur vettvangur þar sem Ísland beitir sér af krafti fyrir framgangi frelsis og mannréttinda allra. Þær ályktanir sem samþykktar voru að þessu sinni sýna að alþjóðasamfélagið lætur brot á mannréttindum ekki óátalin,“ segir Þorgerður Katrín.
Auk fjölda sameiginlegra ávarpa Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem eiga náið samráð og samstarf í mannréttindaráðinu, flutti Ísland í fundarlotunni einnig nokkur ávörp í eigin nafni. Þá samdi og flutti Ísland sameiginlega yfirlýsingu hóps ríkja um Afganistan þar sem kallað var eftir stofnun rannsóknarnefndar um gróf mannréttindabrot í tíð núverandi og fyrri stjórnvalda. Öll ávörp sem Ísland flutti í nýafstaðinni lotu er að finna hér.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fundar að jafnaði í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn. Frekari upplýsingar um setu Íslands í mannréttindaráðinu má finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.