Sumarólympíuleikar í París
Parísarborg hefur verið undirlögð af íþróttaviðburðum síðastliðnar vikur en keppt var í 32 greinum um alla borg og víðar. Sendiráðið hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum í tengslum við skipulag og undirbúning Ólympíuleikanna og átt í góðu samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og frönsk stjórnvöld.
Hefð er fyrir því að gestgjafi leikanna hverju sinni bjóði þjóðarleiðtogum á setningarathöfn Ólympíuleikanna og lagði forsætisráðherra leið sína til Parísar af þessu tilefni auk þess sem hann fylgdist með keppni fulltrúa Íslands í sundi. Mennta- og barnamálaráðherra sótti jafnframt leikana og fylgdist meðal annars með skotfimikeppni Hákons Þórs Svavarssonar á Ólympíuleikunum.
Saga Frakklands og Ólympíuleika nær langt aftur en það var Frakkinn Pierre de Coubertin sem endurvakti Ólympíuleikana og stofnaði Alþjóðaólympíunefndina á Sorbonne-ráðstefnu árið 1894. Síðan hefur Frakkland haldið sex Ólympíuleika og þar af þrenna Sumarólympíuleika, á árunum 1900, 1924 og nú í ár.
Fimm fulltrúar tóku þátt fyrir Ísland að þessu sinni og óskar sendiráðið þeim til hamingju með frábæran árangur.
Næst á döfinni er Ólympíumót fatlaðra sem hefst þann 28.ágúst og stendur til 8.september. Þar á Ísland einnig fimm fulltrúa.