Hoppa yfir valmynd

Undirbúningur ferðalags

Gátlisti fyrir ferðalög

Hér að neðan er að finna gátlista fyrir ferðalagið sem borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur sett saman. Um er að ræða atriði sem rétt er að huga sérstaklega að áður en haldið er af stað í ferðalag erlendis.

  • Þeir sem hyggjast ferðast utan EES gætu þurft að hafa vegabréf sem gilda í a.m.k. 6 mánuði frá áætluðum ferðalokum
  • Ferðaviðvaranir
  • Upplýsingar um næsta íslenska sendiráð og/eða ræðisskrifstofu
  • Vegabréfsáritanir
  • Ökuskírteini
  • Peningar
  • Farmiðar
  • Ferðatryggingar
  • Vottorð – sjúkratryggingakort
  • Bólusetningar
  • Ferðalög með börn
  • Lög, reglur og siðvenjur í því landi sem heimsækja á 
  • Það er ágæt regla að ferðast ávallt með ljósrit af vegabréfi og geyma það á öðrum stað en vegabréfið sjálft

1. Ferðaviðvaranir

Kanna ætti hvort utanríkisráðuneytið eða önnur sambærileg erlend stjórnvöld hafi gefið út ferðaviðvaranir þar sem ráðið er frá ferðalögum á það svæði sem heimsækja á.

2. Upplýsingar um næsta íslenska sendiráð og/eða ræðisskrifstofu

Ferðalangar ættu að kynna sér hvar næsta íslenska sendiráð og/eða ræðisskrifstofa erlendis er staðsett og hvernig hægt sé að hafa samband með skjótum hætti. Mælt er með því að símanúmer þeirra séu skráð sérstaklega.

Í þeim tilvikum sem hvorki íslenskt sendiráð eða ræðisskrifstofa er í tilteknu landi getur norrænt sendiráð veitt íslenskum ríkisborgurum ákveðna neyðaraðstoð. Nánari upplýsingar um það fást hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 545-9900.

3. Vegabréf

Íslenskir ríkisborgarar skulu ávallt hafa vegabréf meðferðis þegar ferðast er til og frá Íslandi þar sem vegabréf eru einu gildu íslensku ferðaskilríkin. Ökuskírteini sýnir t.d. ekki fram á íslenskt ríkisfang. Athugið að framlengd vegabréf teljast ekki lengur gild ferðaskilríki. 

Þeir sem hyggjast ferðast utan EES gætu þurft að hafa vegabréf sem gilda í a.m.k. 6 mánuði frá áætluðum ferðalokum.

Ísland er aðili að Schengen-samkomulaginu og norræna vegabréfaeftirlitssamningnum um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna en kjarni beggja er m.a. að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna. Þess er hins vegar krafist að þeir sem þar ferðast hafi meðferðis gild persónuskilríki til að þeir geti sannað á sér deili. Þá geta flugfélög krafist þess að farþegar sýni vegabréf við innskráningu/byrðingu og einstök ríki geta hert reglur um vegabréfaeftirlit tímabundið.

Því er ekki hægt að tryggja að ferðalangar komist á leiðarenda nema með gild vegabréf og er ferðalöngum eindregið ráðið frá því að treysta á önnur skilríki en vegabréf þegar farið er á milli landa.  

Auk kröfu um gild vegabréf gera erlend stjórnvöld oft kröfu um að það gildi í ákveðinn tíma eftir að komið er til landsins sem um ræðir. Yfirleitt er um að ræða þriggja eða sex mánaða gildistíma fram yfir áætlaðan brottfarardag. Rétt er að kynna sér hverjar kröfur er gerðar í þeim ríkjum sem heimsækja á.

Allar frekari upplýsingar um íslensk vegabréf er að finna á vegabref.is.

4. Vegabréfsáritanir

Rétt er að kynna sér tímanlega hvort vegabréfsáritunar / landgönguleyfis (visa) sé krafist í því landi sem heimsækja á.

Þegar vegabréfsáritunar er krafist þarf oftast að sækja um það í erlendum sendiráðum og/eða ræðisskrifstofum. Þegar viðkomandi ríki hefur hvorki sendiráð né ræðisskrifstofu á Íslandi getur þurft að senda vegabréf eða ljósrit þess til viðkomandi sendiskrifstofu viðkomandi ríkis erlendis.

Afgreiðsla áritana getur tekið einhvern tíma og er því mikilvægt að hefja undirbúning að umsókn tímanlega. Einnig er rétt að hafa í huga að yfirleitt þarf að greiða fyrir áritun. Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu borgaraþjónustunnar um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn.

Rétt er að taka fram að það er á ábyrgð þess sem ferðast að tryggja að hann hafi heimildir til inngöngu í það land sem hann hyggst heimsækja. Hafi viðkomandi ekki gilda áritun getur hann átt það á hættu að vera vísað úr landi samstundis auk þess sem honum kann að verða gert að greiða sekt.

Að gefnu tilefni vill borgaraþjónustan einnig taka fram að hún hefur ekki milligöngu um að útvega íslenskum ríkisborgurum áritanir til erlendra ríkja.

5. Ökuskírteini

Hafi einstaklingar hug á að aka erlendis er rétt að huga að því hvort ökuskírteinið sé tekið gilt í landinu sem ferðast á til sem og að það sé gilt á meðan á dvöl stendur.

Íslensk ökuskírteini sem gefin eru út eftir 15. ágúst 1997 (á stærð við kreditkort) eru viðurkennd á Evrópska efnahagssvæðinu. Þrátt fyrir að það sé almennt gilt annars staðar er rétt að kanna það sérstaklega hjá stjórnvöldum í viðkomandi ríki áður en lagt er af stað.

Hyggi menn dveljast erlendis lengur en 6 mánuði geta aðrar reglur átt við. Sé farið til langdvalar í landi innan EES er heimilt að leggja íslenska ökuskírteinið inn til stjórnvalda í viðkomandi ríki og fá útgefið nýtt þarlent ökuskírteini. Þegar um dvöl er að ræða utan Evrópska efnahagssvæðisins geta misjafnar reglur átt við. Rétt er að kanna hverjar kröfur eru gerðar í hverju ríki fyrir sig.

Sé ökuskírteini af eldri gerðinni, þ.e. gefið út fyrir 15. ágúst 1997, geta íslenskir ferðamenn lent í vandræðum þar sem það hefur almennt ekki sama gildi og þau sem útgefin eru eftir þann tíma. Borgaraþjónustan ráðleggur því öllum sem hafa eldri gerðina að endurnýja skírteinið áður en lagt er af stað.

Mælt er með notkun alþjóðlega ökuskírteinisins erlendis en það gildir í eitt ár frá útgáfudegi. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda sem hefur heimild til að gefa út slík skírteini hérlendis.

6. Peningar

Mikilvægt er að hafa meðferðis nægilega fjármuni (reiðufé, ferðatékka og/eða kredit- eða debetkort) svo unnt sé að greiða fyrir allan ferðakostnað auk annars kostnaðar sem kann að leiða af ófyrirséðum atvikum, t.a.m. lækniskostnaði, útgáfu neyðarvegabréfa o.þ.h.

Hafi fólk meðferðis kredit- eða debetkort er einnig rétt að huga að gildistíma þeirra og PIN-númerum.

7. Farmiðar

Gott er að skilja bókunarnúmer eftir hjá einhverjum nákomnum á Íslandi. Einnig upplýsingar um ferðatilhögun og dagsetningar ásamt gistingu.

8. Ferðatryggingar

Aldrei skal halda af landi brott án viðunandi ferðatrygginga. Æskilegt er að ferðatrygging taki til alls hugsanlegs tjóns sem mögulega getur komið upp erlendis, s.s. lækniskostnaðar, sjúkraflutnings heim, heimferðar vegna alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, bóta vegna þjófnaðar og líkamsárásar svo eitthvað sé nefnt.

Ef ætlunin er að taka þátt í áhættusömum athöfnum erlendis á borð við teygjustökk, fljótasiglingar og annað þess háttar er ráðlagt að kanna sérstaklega hvort ferðatrygging taki til hugsanlegs tjóns af völdum þeirra.

9. Vottorð – sjúkratryggingakort

Íslenskir ríkisborgarar sem sjúkratryggðir eru á Íslandi eiga rétt á að fá útgefið evrópska sjúkratryggingakortið. Það staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur í EES-landi.

Þeir sem ætla að ferðast til EES-lands geta snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins eða umboða hennar áður en lagt er af stað og sótt um evrópska sjúkratryggingakortið. Framvísun kortsins tryggir framangreinda aðstoð. Staðfesting þessi er óþörf sé ferðast til Norðurlanda og Bretlands.

Frekari upplýsingar fást á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins eða í síma 560-4460.

10. Bólusetningar

Áður en haldið er af stað er rétt að huga að því hvort bólusetning sé nauðsynleg. Nánari upplýsingar um það er hægt að nálgast hjá sendiráði viðkomandi ríkis, heimilislækni, heilsugæslustöð eða landlæknisembættinu.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og í síma 585-1300, milli kl. 9-10 og 15-16.

11. Ferðalög með börn

Þegar forsjáraðili ferðast með barn án þess að hinn forsjáraðilinn sé með í för, krefjast erlend landamærayfirvöld þess stundum að aðili sanni að honum sé heimilt að ferðast með barnið. Sé það ekki gert getur viðkomandi átt á hættu að vera ekki hleypt yfir landamæri / í flug.

Sé ætlunin að annar forsjáraðili ferðist með barn er því ráðlagt að útbúin sé sérstök heimild þar sem annar forsjáraðili heimilar hinum að ferðast með barn til eins eða fleiri landa á tilteknu tímabili. Rétt er að heimildin sé á erlendu tungumáli svo landamærayfirvöld skilji efnislegt innihald hennar. Í þeim tilfellum þar sem einn aðili fer með forsjá barns þarf sá að hafa meðferðis forsjárvottorð og fæðingarvottorð.

Utanríkisráðuneytið mælir með því að undirrituð heimild sé staðfest notarial vottun af sýslumanni sem og staðfest af utanríkisráðuneytinu. Með þessu er leitast við að tryggja að íslenskt skjal verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi.

Framangreint á einnig við þegar annar en forsjáraðilar ferðast með barn. Í þeim tilvikum þarf að liggja fyrir umboð beggja forsjáraðila þar sem veitt er heimild til ferðalaga með barnið sem um ræðir.

Allar nánari upplýsingar um þetta er að finna á vef sýslumanna, þar með talið eyðublaðið sem þarf að fylla út.

12. Lög, reglur og siðvenjur í því landi sem heimsækja á

Ávallt skal fylgja lögum, reglum og siðvenjum sem gilda í því landi sem þú heimsækir. Þar sem þau geta verið verulega frábrugðin því sem þú kannt að venjast er gott að kynna sér þessi atriði sérstaklega áður en lagt er af stað.

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics