Hoppa yfir valmynd

Þýðendaþing í sendiherrabústað

Kristján Andri Stefánsson sendiherra stóð í dag fyrir þýðendaþingi í sendiherrabústaðnum. Þingið var helgað þýðingum úr íslensku á frönsku, en mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Einnig var miðað að því að vekja áhuga á íslenskunámi og þýðendastarfinu, en einungis fáeinir þýðendur vinna að því að þýða þorra íslenskra bókmennta yfir á frönsku. Dagskráin var unnin í  samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og með stuðningi frá Miðstöð íslenskra bókmennta og Icelandair.

Meðal þátttakenda voru Hrafnhildur Hagalín, Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir, sem öll eru frönskumælandi, auk þýðendanna Catherine Eyjólfsson, Éric Boury og Jean-Christophe Salaün. Einnig tók þátt fyrir hönd Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Ásdís Rósa Magnúsdóttir prófessor, sem og Kristín Jónsdóttir íslenskukennari í Sorbonne og Hanna Steinunn Þorleifsdóttir við háskólann í Caen, Normandie, sem eru þeir tveir háskólar sem kenna íslensku í Frakklandi. Pallborðsstjóri var Bjarni Benedikt Björnsson fyrrum íslenskukennari í Sorbonne. Til máls tóku einnig nemendur í íslensku í skólunum tveimur, sem og aðilar frá frönsku bókmenntaútgáfunum Éditions Métailié, Gallimard, Grasset, Héloïse d‘Ormesson og La Martinière.

Á þýðendaþinginu skapaðist samtal milli íslenskukennara í Frakklandi og nemenda þeirra, þýðenda, höfunda og franskra bókaútgefenda. 

Viðstaddir voru einnig franskir blaðamenn og fulltrúar franskrar tungu hjá stjórnvöldum í Frakklandi, sem og aðrir fræðimenn og þýðendur. Að þýðendaþinginu loknu bauð sendiherra viðstöddum upp á veitingar með íslensku ívafi.

 

 

 

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics