Hoppa yfir valmynd

Tímamótaaðgerð til stuðnings íslenskum bókum

Með frumvarpi um stuðning við bókaútgáfu er lagt til að komið verði á fót nýju stuðningskerfi sem heimilar endurgreiðslu 25% beins kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag en það er liður í heildstæðum aðgerðum stjórnvalda til stuðnings íslenskri tungu sem kynntar voru í haust.

Bókaútgáfa er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar og er gildi hennar fyrir þróun íslenskrar tungu og eflingu læsis óumdeilt. Kveðið er á um stuðning við útgáfu bóka á íslensku í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins fékk það hlutverk að fara yfir hugsanlegar leiðir að því markmiði og var niðurstaða starfshópsins sú að farin yrði stuðningsleið sem felur í endur¬greiðslu á hlutfalli kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

„Meginmarkmið frumvarpsins er að styðja við og efla útgáfu á íslensku vegna menningarlegs mikilvægis bókaútgáfu fyrir þróun íslenskunnar. Þessi tímamótaaðgerð er til þess fallin að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Ég bind vonir við að hún marki þáttaskil fyrir íslenskar bækur og muni hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér, til hagsbóta fyrir lesendur, rithöfunda og alla þá er koma að útgáfu hér á landi.“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics