Hoppa yfir valmynd

Pallborðsumræður um forystuhlutverk Íslands í aðgerðabandalagi átaksverkefnisins "Kynslóð jafnréttis"

Thomas Friang, forstöðumaður Open Diplomacy-stofnunarinnar, Delphine O, sendiherra og framkvæmdastýra verkefnisins Kynslóð jafnréttis og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra - mynd
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, tók í dag þátt í pallborðsumræðum um forystuhlutverk Íslands í aðgerðabandalagi átaksverkefnisins, Kynslóð jafnréttis, um að útrýma kynbundnu ofbeldi ásamt Delphine O, sendiherra og sérlegri framkvæmdastýru verkefnisins í Frakklandi. Thomas Friang, forstöðumaður Open Diplomacy-stofnunarinnar, tók að sér að stýra pallborðsumræðunum. Meðal ræðumanna á fundinum var Roxana Maracineau, íþróttamálaráðherra Frakklands.

Fundurinn var hluti af fundaröð 14 funda sem er skiplögð af Open Diplomacy-stofnunni í samvinnu við frönsk stjórnvöld undir heitinu Le Grand Tour #NotreGénérationÉgalité. Fundaröðin er liður í því að styrkja samtal um jafnréttismál milli stjórnvalda, borgarasamtaka, kvennahreyfinga og fræðasamfélagsins í aðdraganda Parísar-fundar átaksverkefnisins.

Átaksverkefnið, Kynslóð jafnréttis, hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Verkefnið er meðal stærstu verkefna UN Women hingað til og er markmið þess að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur, í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Parísar-fundurinn, sem mun eiga sér stað 30. júní-2. júlí nk., er haldinn á vegum UN Women og franskra stjórnvalda.

Góðar umræður spunnust á fundinum en auk þess að leggja áherslu á mikilvægi forvarna og þess að efla þátttöku karla og drengja í þessu tilliti, lagði Unnur einnig sérstaka áherslu á að tækifæri borgarasamtaka og kvennahreyfinga til að hafa áhrif á og móta stefnu séu til staðar. Einnig áttu þátttakendur áhugaverðar umræður um femíniska diplómatíu og leiðir til þess að stuðla að auknu jafnrétti á heimsvísu.
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics