Hoppa yfir valmynd

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn 100 ára í dag!

Elsta sendiráð Íslands erlendis, sendiráðið í Kaupmannahöfn, er 100 ára í dag!

Frá stofnun sendiráðs Íslands í Danmörku 16. ágúst 1920 hafa 20 sendiherrar veitt sendiráðinu forstöðu. Sá fyrsti var Sveinn Björnsson, sem var sendiherra til ársins 1941. Á þessum tíma var Ísland enn hluti af danska konungsríkinu, en hafði fengið heimastjórn árið 1904 og fullveldi árið 1918. Danir fóru þó enn með utanríkismál fyrir Íslands hönd samkvæmt Sambandslögunum. Það breyttist 10. apríl 1940, daginn eftir að Danmörk hafði verið hernumin af Þjóðverjum, en þá samþykkti Alþingi að Ísland skyldi taka utanríkismál að öllu leyti í sínar hendur.

Auðvitað hefur svo ótal margt breyst í starfsemi sendiráðsins á heilli öld með aukinni þekkingu og tækniþróun, en í grunninn eru verkefni þess þau sömu og við stofnun þess – hagsmunagæsla fyrir Ísland og Íslendinga í stjórnmálalegu samhengi og menningarlegu og viðskiptalegu tilliti. Borgaraþjónustan er og hefur ávallt verið mikilvægur hluti af starfi sendiráðsins, og hefur hún ekki síst sannað gildi sitt á þessu afmælisári sem varð allt öðruvísi en margur hugði. En einmitt vegna þess verða hátíðahöld í tilefni aldarafmælisins að mestu leyti rafræn. Sendiráðið vekur athygli á afmælisvef utanríkisþjónustunnar, sem fagnar 80 árum á þessu ári, og fyrir Íslendinga, sem staddir eru í Kaupmannahöfn, má nefna að á Norðurbryggju stendur yfir sýningin „VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR – verdens første folkevalgte kvindelige præsident“ til 18. október nk. sjá nánar um sýninguna

Einnig vekjum við athygli á að sýning Ionu Huntingdon-Williams, Orðlaus er opin í anddyri sendiráðsins alla virka daga frá kl 9-16.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics