Hoppa yfir valmynd

Fjölbreytt menningardagskrá til heiðurs Íslandi í Paimpol

Haldið var upp á 20 ára afmæli vinabæjasamstarfs Paimpol og Grundarfjarðar með pompi og prakt í Paimpol á Bretagne skaganum í Frakklandi í síðustu viku. Sérstakt vinabæjafélag, GrundaPol, var stofnað þann 2. apríl 2012 með það að markmiði að rækta tengsl bæjanna tveggja, efla samskipti og auðga menningarlíf, en samskiptin byggja á sögu franskra sjómanna frá Paimpol sem sóttu hafið við Íslandsstrendur. Paimpol óx mikið og byggði m.a. stærri höfn á þeim tíma þegar þorskveiðar franskra sjómanna við Íslandsmið stóðu sem hæst. Margir sjómenn misstu líf sitt í þessum háskaförum og eru minnisvarðar um „les Islandais“ eins og þeir voru kallaðir víða í Paimpol og á Íslandi.

Í tilefni afmælisins var slegið til hátíðar í bænum og boðið upp á fjölbreytta menningardagskrá alla helgina. Íslenskum fánum var flaggað víða um bæinn. Fjörutíu manna sendinefnd frá Grundarfirði undir forystu Bjargar Ágústsdóttur, bæjarstjóra Grundarfjarðar, tók þátt í dagskránni. Með í för var einnig Una Jóhannsdóttir, varamaður sendiherra í París. Bæjarstjóri Paimpol, Fanny Chappé, tók á móti hópnum í ráðhúsinu á fimmtudag þar sem boðið var upp á bretónskar kaffiveitingar og leikið á sekkjapípur við komu hópsins. Bæjarstjórarnir og varamaður sendiherra fluttu ávörp og minntust sterkra tengsla Paimpolbúa og Grundfirðinga sem hófust með komu sjómanna og vöruskiptum þar sem Íslendingar fengu m.a. brentónskar kexkökur og franskt vín í skiptum fyrir lopavettlinga. Eftir móttökuna var farið að landssvæði við sjóinn þar sem ákveðið hefur verið að staðsetja sérstakan garð til heiðurs Íslandi. Vinnan við íslenska garðinn er ekki hafin en um var að ræða táknrænt upphaf vinnunnar þar sem fyrsta tréð var gróðursett og minnisvarði um 20 ára afmæli vinabæjanna vígður.

Á föstudeginum heimsótti hópurinn gagnfræðiskólann Chombart de Lauwe en skólinn hefur verið í samstarfi við grunnskólann á Grundarfirði og hafa franskir nemendur m.a. fengið tækifæri til að heimsækja Grundarfjörð og dvelja hjá fjölskyldum í bænum. Skólinn var skreyttur íslenska fánanum og ljósmyndum frá Íslandi og Grundarfirði en nemendur í 6. bekk hafa á síðustu vikum kynnt sér sögu tengsla Paimpol og Íslands auk þess að læra um náttúru Íslands, land og þjóð. Hópurinn fékk flotta kynningu frá nemendum og Björg Ágústdóttir hélt kynningu um líf og störf í Grundarfirði.
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 3
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 4
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 5
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 6
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 7
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 8
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 9
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 10
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 11
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 12
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 13

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics